Spilafíkn er raunverulegt vandamál í nútíma samfélagi

SPILAFÍKN er raunverulegt vandamál í nútímasamfélagi.

Fíkn í almenn fjárhættuspil hefur lengi vel verið einskonar tabú umræðuefni í þjóðfélaginu. En undanfarin ár hafa spilafíklar og aðstandendur þeirra, í auknum mæli, látið í sér heyra og sagt frá ömurlegum vítahring þeirra sem hafa spilað frá sér allar eigur sínar, fjölskylduna og jafnvel lífið sjálft.

Samkvæmt lögum mega þeir sem yngri eru en átján ára ekki spila í t.d. spilakössum en allir vita að eftirlit hefur verið nánast ekkert, þó vissulega hafi það farið batnandi síðustu ár. Mjög margir unglingar undir aldri kannast við það að hafa spilað í spilakössum og gera það jafnvel reglulega.

En hvað er það sem fær fólk til að spila fjárhættuspil, vitandi það að vinningslíkurnar eru nánast alltaf gegn spilaranum?

Jú, spilafíkillinn upplifir einskonar vímuástand sem ýtir frá allri rökhugsun og kallar á meira. Enda vitað mál að sakleysislegir spilakassarnir eru vísindalega hannaðir til að gera fólk "ánetjað". Vinningslíkurnar eru ávallt á móti spilaranum og því ómögulegt að græða í þeim þegar litið er til langs tíma, en hugbúnaðurinn sér til þess að læsa einstaklinginn inni í heimi spilafíknarinnar.

Spilafíkn hefur augljóslega marga mjög slæma hluti í för með sér eins og áfengissýki og fíkniefnaneysla, en það sem gerir spilafíknina verri á margan hátt er að hún getur oft á tímum dulist aðstandendum og umhverfinu lengur. Spilafíkillinn ber ekki fíknina utan á sér, hann heldur henni leyndri og notar til þess lygavef sem hann heldur dauðahaldi í þangað til heimur hans hrynur að lokum.

Skaðlegar afleiðingar spilafíknar eru vel þekktar og bitna ekki aðeins á fíklinum sjálfum, heldur líka á fjölskyldu hans og samfélaginu öllu.

Mikil umræða hefur átt sér stað í íslenskum fjölmiðlum undanfarin ár um alvarleika og algengi spilafíknar í íslensku samfélagi. Umræða þessi hefur nú orðið áberandi í kjölfar fjölda sjálfsvíga sem beint og óbeint má rekja til spilafíknar. Þannig er það með langt leidda spilafíkla að þeir fela vandamálið svo vel að aðstandendur og ástvinir vita ekkert fyrr en spilafíkillinn er búinn að spila allt frá sér og kominn algjörlega á botninn.

En í mörgum tilfellum uppgötvast vandamálið of seint og spilafíkillinn sér enga aðra útkomuleið en að taka sitt eigið líf og skilur sína nánustu eftir í sorg og skuldum.

Spilafíkn er tiltölulega nýlega viðurkennt þjóðfélagsmál og því er skilningur og hjálparferli við spilafíkla ekki langt á veg komið miðað við það sem gerist annarstaðar á Norðurlöndunum.

Þó voru samtökin SÁS – Samtök áhugafólks um spilafíkn – stofnuð í ársbyrjun 2004 og leita nú spilasjúklingar og aðstandendur til samtakanna í auknum mæli.

SÁS hafa gert myndband um spilafíkn sem verður sýnt í Ríkissjónvarpinu á næstu vikum. Tilgangur okkar með þessu myndbandi er að dreifa því til allra sem starfa með börnum og unglingum til að fólk átti sig á hversu alvarleg spilafíknin er. Vonast samtökin að sveitarfélög, ríki og fyrirtæki styðji við bakið á okkur, því að allt forvarnarefni og forvarnarstarf kostar peninga.

Þeir sem vilja kynna sér málefnið betur geta kynnt sér það á www.spilavandi.is

Höfundur er formaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn.


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband